top of page
Sögustund hefur að markmiði að efla nemendur á leikskólaaldri í námi
Aðstoða kennara og forráðamenn við að finna og útbúa námsgögn

Börn þurfa að fá fjölbreytta kennslu á öllum skólastigum. Þegar börn efla hlustunarskilning sinn með því að hlusta á mismunandi sögur ná þau að auka hugmyndaflug sitt sem þau geta sjálf nýtt í eigin tjáningu á þeim sögum sem þau vilja miðla.

MB0A2324-70.jpg

Hjá sögustund er leikskólakennurum og forráðamönnum ungra barna veitt leiðsögn í að segja börnum sögur með því að setja upp leikrit með hjálp brúða til þess að gefa börnunum tækifæri til þess að efla hlustunarskilning sinn. Þá er búið til sögusvið með þeim efnivið sem skiptir máli fyrir söguna, eins og brú yfir á í sögunni um Geiturnar þrjár eða hús bjarnanna í sögunni um Gullbrá og birnina þrjá. Í sögusvið má nota efni eins og filtefni eða prjónað sögusvið eins og sýnt er hér. Mismunandi kubba, eins og til dæmis einingakubba, má nota í byggingar. Þá er hægt að vera með fjölbreytt og náttúruleg efni í skóga og stíga.

Margra ára þróunarvinna hjá Sögustund hefur leitt í ljós að það auðveldar sögumanni ef brúðurnar sem notaðar eru í söguna geti staðið á sögusviðinu auk þess sem upplifun barnanna á brúðunum er betri ef þær standa heldur en ef þær liggja út af. Sögumaður getur þá handfjatlað þá brúðu sem er að tala og hreyft hana eftir sögusviðinu meðan eru á sínum stað á meðan. Vegna þess hversu erfitt er að kaupa tilbúnar brúður ævintýra sem geta staðið þá er hjá Sögustund boðið upp á uppskriftir af prjónuðum brúðum sem geta það. Í prjónuðu brúðunum er auk þess lögð áhersla á þá þætti í útliti brúðanna sem skipta máli til þess að skilja söguna eins og rúm bjananna og grautarskálar þeirra eru í sama lit og fötin þeirra til þess að börnin geti parað saman birni og fylgihluti þeirra. Upplýsingar um námskeið í prjónuðum brúðum má nálgast hér. Fyrir þá sem treysta sér ekki í handavinnuna er boðið upp á mismunandi gerðir af tilbúnum brúðum í ævintýri hér. Hægt er að hafa samband hér, vegna sérverkefna í brúðugerð, eða ef áhugi er fyrir að kaupa tilbúnar prjónaðar brúður.

Af hverju brúður:
MB0A5831-70.jpg

Brúður vekja forvitni og áhuga hjá börnum. Börn eiga auðvelt með að setja sig í spor brúða og samsama eigin tilfinningar við mögulegar tilfinningar brúðanna. Ung börn eru vön því að færa líf í líflausa hluti. Þau persónugera bangsa sína og brúður frá unga aldri.

 

Með því að nota brúður við kennslu stígur kennari inn í heim barnsins og kennir í gegnum leik. Kennarinn á auðvelt með að ná athygli barnsins og þar með að ná fram gæðastundum meðal annars í málörvun.

Hjá Sögustund er boðið upp á þrjár gerðir af brúðum.

Sögubrúður eru sérhæfð kennslugögn, prjónaðar og heklaðar brúður sígildra ævintýra og íslenskra þjóðsagna. Brúðurnar eru hannaðar í smáatriðum til að geta sýnt og sagt sögur, fluttar sérstaklega með það að markmiði að auka málskilning barna og virkja skapandi hugsun þeirra. Brúðurnar hlutgera persónur og söguþráð ævintýra til að börnin skilji söguna betur. Kennari býr til leikrit og sögusvið með hjálp einingakubba sem hannaðir voru af Caroline Pratt. Stærð brúðanna passar við hinn svokallaða grunn einingakubb sem má nota meðal annars sem rúm í sögusviði ævintýrsins.

MB0A8320-70.jpg
MB0A3812-70.jpg

Brúðugerð á sögubrúðum er kennd á námskeiðum Sögustundar. Kennari sem kemur á námskeið fær fyrirlestur um gildi brúðusagna með börnum. Hann velur sér þjóðsögu eða ævintýri sem hann vill búa til og fær pakka með uppskriftum, garni og öllu efni sem við á og skiptir máli. Hann fær leiðbeiningar um hönnun sögubrúðanna og hvernig efnið nýtist best með börnum. Sögubrúður eru einnig til sem fingrabrúður til notkunar með þulum og sönglögum.

 

Hægt er að skrá sig á námskeið Sögustundar hér.

 

Leikbrúður eru þæfðar brúður fyrir börn til notkunar í leik. Þær eru einfaldar og geta staðið fyrir hvaða persónu sem er auk þess sem börnin geta tekið þátt í hönnun og saumaskap þeirra. Börnin nota brúðurnar til að tjá skapandi hugsun sína og endursegja sínar eigin útgáfur á þeim sögum sem þau hafa lært í sögustundum. Þau geta notað brúðurnar með einingakubbum eins og kennarinn gerir en við það breytist leikur þeirra með einingakubbum úr kubbaleik í hlutverkaleik. Fría uppskrift af þæfðum brúðum er hægt að nálgast hérEinnig er hægt að kaupa tilbúnar leikbrúður hér.

Handarbrúður eru persónubrúður sem kennari getur stjórnað með höndum sínum. Brúðurnar eiga nafn og sitt líf sem þau deila með börnunum ásamt því að segja þeim sögur og fá börnin til að segja sínar sögur. Brúðurnar vilja heyra sögurnar sem börnin kunna og vera með í sögustund með sögubrúðum til að geta rætt sögurnar á eftir. Handarbrúður þurfa einnig að læra ýmislegt í leikskólanum eins og félagsfærni og almenna kurteisi. Hægt er að panta uppskriftahefti af handarbrúðum hér eða kaupa tilbúnar brúður hér.

Hvernig eru brúðurnar notaðar:

Sögubrúður:

Sögubrúður eru notaðar í sögustund með börnum. Kennari kynnir persónur sögunnar, útskýrir útlit brúðanna og tengingu þeirra við hvor aðra. Kennari skýrir út fyrir börnunum hvar sagan gerist og hvar sögupersónurnar eiga heima. Hús brúðanna eru búin til úr einingakubbum. Þetta kennir börnum að byggja upp eigið upphaf að frásögn auk þess að byggja úr einingakubbum í þeirra eigin leik. Hægt er að nota efnisbúta í sögusviðið ásamt trjábútum, steinum og ýmsu verðlausu efni. Einnig er hægt er að nálgast fría uppskriftir af prjónuðu sögusviði, trjám og blómum hér á síðunni undir flipanum Sögusvið.

MB0A4406-70.jpg

Málörvun.

Megin hugmyndin með brúðunum er málörvun barna. Cremin og Flewitt (2017) sögðu að það skipti miklu máli að segja ungum börnum sögur því það efli tungumál þeirra. Með brúðunum er hægt að sýna börnum hvað orðin merkja um leið og þau er sögð.

 

Í sögum er aðalpersóna kynnt til leiks. Eitthvað gerist sem hrindir atburðarrás af stað. Aukapersónur koma við sögu og það verða ákveðin sögulok sem tengist atburðarrásinni sem var hrint af stað. Þessi söguuppbygging kennir börnum að skipuleggja eigin frásögn í munnlegu og rituðu máli auk sem sem  góðar sögur innihalda oft einhvern boðskap sem er börnum mikilvægur. Brúðurnar hafa ákveðið útlit sögupersónunnar sem skiptir máli fyrir frásögnina og hjálpar til við að koma henni rétt til skila.

 

 

Með því að segja börnum söguna í stað þess að lesa hana myndast nánd á milli kennara og nemenda. Kennari nær augnsambandi við börnin og skynjar áhuga barnanna og skilning þeirra á sögunni. Hann á auðvelt með að hægja á sér eða að endurtaka síðustu setningu ef hann skynjar að skilningurinn hafi ekki komist til skila.

Sögustundin.

Í sögustundinni á kennari innihaldsrík samskipti við nemendur. Hann handfjatlar þá brúðu sem er að tala og segir hvað brúðurnar eru að gera um leið og hann færir þær til. Mjög ung börn læra orð þegar hinn fullorðni beinir athygli þeirra að hlut eða athöfn og segir orðið um leið. Hér er verið að nota sömu aðferð. Athygli barnanna er á því sem orðið stendur fyrir um leið og þau heyra orðið. Ef börnin skilja söguþráðinn þá bæta þau inn þeim orðum sem þau þekkja ekki, á þá athöfn sem verið er að sýna. Það er því mikilvægt að söguþráður sögunnar sé einfaldur og byggður upp á grunnorðaforða eða þeim orðum sem börn læra fljótt. Síðan má bæta við orðum úr millilagi eða efsta lagi orðaforðans eftir aldri barnanna til að auka markvisst þekkingu þeirra á tungumálinu.

MB0A1942-70-2.jpg

Kennari getur notað fjölbreyttan orðaforða með fjölbreyttum nafnorðum, lýsingarorðum og sagnorðum. Meðan á sögustund stendur getur kennari sýnt börnunum merkinguna á yfir/undir og fyrir framan/fyrir aftan. Hann getur notað samheiti orða til að efla málskilning barnanna. Ef Bangsamamma opnar hurðina í dag þá opnar hún t.d. dyrnar næst þegar barnið heyrir og sér söguna. Barnið lærir að dyr og hurð er sami hluturinn án nokkurra útskýringa.

Hægt að snúa við hefðbundnum kynhlutverkum.

​Í sögustundum með brúðum er auðvelt að snúa við hefðbundnum kynhlutverkum. Það er tilvalið að bangsapabbi vakni fyrstur til að útbúa hafragraut og bangsamamma geri við stól húnsins í lok sögunnar. Jafnvel enn betra ef þau skiptast á við verkin.

 

Mismunandi kynþættir.

​Við brúðugerðina er um að gera að huga að fjölbreytileikanum og hafa brúðurnar af mismunandi kynþáttum ef það skiptir ekki máli fyrir söguna.

 

​Flétta inn félagsfærnisögum.

​Kennari segir börnunum sína eigin útgáfu af ævintýrinu en hafa ber í huga grundvallar söguþráð sögunnar. Að flétta inn félagsfærnisögum í ævintýrið er þó meinlaust. Litli húnninn þarf til dæmis að fara á salernið áður en hann fer í göngutúr með foreldrum sínum, því hann hefur lært af birturri reynslu að það borgi sig.

 

Þema út frá sögum.

​Ef börnum finnst ákveðin saga spennandi og skemmtileg þá er um að gera að staldra við hana og kafa dýpra. Tjáskiptin verða bara enn dýpri og innihaldsríkari þegar við búum til þema út frá sögunni.

MB0A2344-70.jpg

Tvítyngd börn.

Brúðusögur henta tvítyngdum börnum einkar vel. Sígildu ævintýrin eru jafnvel til á tungumáli þeirra í eigin heimamenningu. Stundum koma fyrir orð í sögunum sem ná yfir hluti innan heimilisins sem börnin þekkja heiman frá sér en eru kannski ekki notuð í íslensku málumhverfi skólans eins og til dæmis eldavél.

 

Lýðræði og jafnrétti.

Hjá Sögustund er lagt upp úr því að ævintýrin séu gömul og vel þekkt. Áherslan er á íslenskar þjóðsögur til að viðhalda menningu þjóðarinnar og á sígildum ævintýrum sem til eru í mismunandi menningarheimum og hafa varðveist í aldanna rás vegna boðskaps sem felst í þeim. Lýðræði, umburðarlyndi og jafnrétti er mikilvægt í nútíma samfélagi og því er hjá Sögustund ekki boðið upp á hefðbundin prinsessuævintýri þar sem prinsessan er í ánauð og þarf að bíða eftir að vera bjargað af prinsi.

_FT_3563-70.jpg

Endursögn.

Endursögn eykur skipulagða hugsun barna. Börnin geta notað brúðurnar til að skiptast á að endursegja söguna fyrir vini sína og kennara. Brúðurnar hjálpa þeim að muna söguna og eflir öryggi þeirra við að koma fram.

Þæfðar leikbrúður:

Með því að láta börnum í té brúður í leik með einingakubbum er barnið komið með leikefni sem þarf til að endurskapa í leik og endursegja sögurnar sem það þekkir. Börnin eiga auðvelt með samleik brúða vegna þess að þau þekkja sömu sögurnar. 

IMG_2324.JPG

Leikbrúðurnar eru einfaldar og þæfðar úr ull til að barnið geti jafnvel verið með í gerð þeirra og saumaskap. Þær eru andlitslausar og geta því staðið fyrir hvaða sögupersónu sem er.  Efnisbútar, steinar, mismunandi kubbar og verðlaust efni er efniviður sem fer vel með. Uppskrift af þæfðum brúðum má nálgast undir flipanum Leikbrúður.  

MB0A1914-50.jpg

Handarbrúður:

MB0A5750-70.jpg

Handarbrúður lifna við í höndum kennara og hjálpa þeim að ná athygli barna til að kenna þeim málörvun og félagsfærni. Handarbrúðurnar geta sagt börnunum sögur og frá atburðum úr eigin lífi. Brúðan getur verið fyrirmynd barna í hegðun því kennarinn þarf að kenna brúðunni félagsfærni og framkomu.

 

Þær geta kennt börnum að búa til sínar eigin sögur og eigin lög, æfa framburð á orðum því að brúðan á í vandræðum með að segja nokkur orð rétt. Það er sniðugt að hafa  brúðuna með tösku með persónulegum eigum í eins og t.d. strætómiða eða bréf. Það kemur af stað umfjöllun um líf brúðunnar og líf barnanna.

Börn byrja ung að tala við tuskudýr og brúður. Þeim þykir því eðlilegt að tjá sig við handarbrúðu. Kennarinn getur búið til fjölbreyttar brúður af mismunandi stærðum og kynþáttum. Einnig Gullbrá, Rauðhettu, strákinn í Búkollu, ömmu, afa og fatlaða brúðu. Það skapar víðsýni og umræðu um allskonar fólk. Hægt er panta uppskriftahefti af handarbrúðum undir flipanum Handarbrúður.

Heimildir:

Cremin, T. og Flewitt, R. 2017. Laying the foundations, narrative and early learning. Í Cremin, T., Flewitt, R., Mardell, B. og Swann, J. (ritstjórar), Storytelling in early childhood, enriching language, literacy and classroom culture. New York: Routledge.

Kynningarstarf Sögustundar:

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, kynnir sér kennslugögn Sögustundar á ráðstefnunni: „Lestur er lykill að ævintýrum“ á vegum Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.

Sögustund býður upp á kynningar um notkun brúðusagna með börnum til málörvunar og gildi þess að segja börnum sögur og ævintýri. Tími eftir samkomulagi.

  • Sögustund á Facebook

Sögustund á facebook

© Hrefna Böðvarsdóttir, afritun í heild eða að hluta er óheimil.

bottom of page