top of page

Af hverju brúðusögur

Þriggja ára börn skilja sögu út frá söguhetjum hennar (Kim, 2016; Dore, Amendum, Golinkoff og Hirsh-Pasek, 2018). Persónur í sögum barna verða því til áður en þau hafa þroska til að búa til söguþráð (Nicolopoulou, 2007).

Fyrstu persónurnar og hutverkin sem þau skapa í leik sínum eru skilgreind út frá athöfnum þeirra fremur en persónuleika, sérstaklega hjá drengjum. Hjá stúlkum virðist skipta meira máli félagsleg staða persóna sem þær skapa í leik sínum (Richner og Nicolopoulou, 2001).

Börn geta samsamað sig við sögupersónu alveg frá tveggja ára aldri. Á þriðja ári öðlast börn færni í að setja sig í spor annarra (e. theory of mind). Þau geta skilið að aðrir eiga annað líf en þau sjálf og þau ná þeim þroska að geta horft á heiminn út frá öðrum (e. meta-cognition). Einnig verða börn betur fær í að tjá eigin hugsanir og skapa líf annarra persóna í hlutverkaleik sem er allsráðandi á þessum aldri (Feldman, 2005). 

April 2017 008-70.jpg

Starfendarannsókn höfundar

Starfendarannsókn, sem var meistararitgerð höfundar, var framkvæmd á einni leikskóladeild í leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Markmið hennar var að þróa lærdómssamfélag innan leikskólans í því skyni að nota sögur í auknum mæli sem gefið gæti ungum börnum tækifæri til að efla hlustunarskilning sinn og tjáningarfærni í tali og hlutverkaleik, meðal annars með því að segja börnunum sögur sem leikrit með brúðum. Eftirfarandi texti er tilvísun í ritgerðina en ritgerðin í heild sinni má nálgast hér.

„Frá fyrstu sögustundinni með brúðum upplifðu börnin stundina sem ánægjulega. Þau voru forvitin um sögurnar og vildu fá að skoða efniviðinn. Ég sem kennari nýtti áhuga þeirra til þess að gefa okkur tíma til að búa til sögusviðið með mismunandi fylgihlutum og nefna alla hluti sem notaðir voru í sögusviðið, stærð þeirra og liti ásamt skilgreiningu á þeim kubbum sem notaðir voru í húsbygginguna til þess að gefa börnunum kost á að læra tengsl milli orða og hluta eða athafna og þannig að auka orðaforða sinn (Kim og Yun, 2019).” (Hrefna Böðvarsdóttir, 2022).

Starfendarannsóknin leiddi í ljós að það er mikilvægt börnunum að fá sjálf tækifæri til þess að leika og tjá sögurnar í framhaldi af sögustundunum með brúðum. Börnin þurfa svokallaðar sögukörfur með brúðum og fylgihlutum til sköpunar, eins og kubba, tré, steina, skeljar og dýr til þess að geta leikið og tjáð sögurnar sem þau hafa meðtekið ásamt þeim sögum sem þau vilja sjálf tjá.

Mai 010.JPG

„Eftir að sögukarfan var kynnt sem hluti af efnivið barnanna á deildinni opnaðist heill heimur tjáningar og sagna hjá börnunum. Börnin voru búin að fá fullt af hugmyndum að skemmtilegum leik í gegnum sögur (Hrefna Böðvarsdóttir, 2022).”

Skipasmíði apríl 2018 008-70.jpg

Samkvæmt Kim og Pilcher (2016) byggir hlustunarskilningur á því að börn hafi góðan orðaforða og málfræðiþekkingu, að athygli þeirra sé góð, að þau hafi gott vinnsluminni og góða almenna þekkingu. Þau nota síðan hugarstarfsemi sína til þess að ná skilningi á textanum með því að beita ályktun til þess að geta lesið á milli lína það sem ekki er sagt beinum orðum í textanum og rökhugsun til þess að skynja mögulegar rökvillur í textanum. Þekkingu á hugarheimi annarra, eða að geta skynjað atburðarás út frá öðrum en sjálfum sér, hafði mestu áhrifin á hlustunarskilning barna af öllum þeim þáttum sem mældir voru í rannsókn Kim og Pilcher (2016). Þekking á fyrirætlunum og tilfinningum söguhetja virðist því eiga stóran þátt í því að ung börn skilji sögu (Kim, 2016).

Aðrar rannsóknir

Ýmsar rannsóknar hafa verið gerðar á áhrifum sagna á málskilning og tjáningarfærni barna. Í rannsókn Ward (2016) kynntust þriggja til fimm ára börn náttúrunni í gegnum sögur og söguheim dýra. Í leik fóru þau að segja og leika þær sögur sem þau þekktu. Eftir þrjá mánuði voru börnin farin að búa til sínar eigin sögur.

 

Lindqvist (2001) gerði rannsókn þar sem hlutum úr söguheimi var raðað upp í leikskólastofu. Hlutirnir virtust ekki hafa áhrif á börnin nema að vekja furðu þeirra. Þegar leikskólakennararnir tóku upp á því að leika sögu sem tengdist hlutunum þá tóku börnin við sér. Niðurstaðan sýndi að það eru ekki dauðir hlutir sem virka sem kveikja að tjáningu og leik barna heldur er það sagan eða lífið að baki hlutunum sem gefur þeim merkingu og fleytir börnum í leik.

 

Í rannsókn Ilgaz og Aksu-Koc (2005) kom aftur á móti fram að fjögurra ára börn áttu auðveldara með að segja sögu ef þau höfðu leikföng til að tjá sig. Þá gátu þau búið til sögusvið, sögupersónur og söguþráð. Börnin áttu einnig auðveldara með að tjá atburðarás sögunnar. Það má því segja að sögur glæði hluti lífi og að hlutir glæði sögur barna.

Hlutir geta veitt börnum tækifæri til þess að búa til líf þegar þeir passa inn í ramma þeirra tjáninga sem börnin vilja túlka þegar þau búa til sögusvið, sögupersónur og söguþráð í sögum sínum (Ilgaz og Aksu-Koc, 2005) og saga að baki hlutum getur gefið lífinu lit og sögum merkingu sem fleytir börnum í leik (Lindquist, 2001). Því er mikilvægt að veita börnum tækifæri til þess að eiga tilveru í heimi sagna og ævintýra þannig að þau geti skapað sína eigin heima og eigin sögur.

Heimildir

 

Dore, R.A., Amendum, S.J., Golinkoff, R.M. og Hirsh―Pasek, K. (2018). Theory of mind: A hidden factor in reading comprehension. Educ Psychol Rev 30, 1067―1089. https://doi.org/10.1007/s10648-018-9443-9

Feldman, C.F. (2005). Mimises: Where play and narrative meet. Cognitive Development, 20, 503―513. https://doi.org/10.1016/j.cogdev.2005.08.006

Hrefna Böðvarsdóttir. (2022). Sögur barna. Þróun starfshátta til eflingar hlustunarskilnings og tjáningarfærni leikskólabarna. Starfendarannsókn. Menntavísindasvið Háskóla Íslands. https://skemman.is/handle/1946/42416

Ilgaz, H. og Aksu-Koc, A. (2005). Episodic development in preschool children´s play-prompted and direct-elicited narratives. Cognitive Development, 20, 526―544. https://doi.org/10.1016/j.cogdev.2005.08.004

Kim, Y-S. G. (2016). Direct and mediated effects of language and cognitive skills on comprehension of oral narrative texts (listening comprehension) for children. Journal of Experimental Child Psychology, 141, 101―120. Elsevier. doi: 10.1016/j.jecp.2015.08.003

Kim, Y-S. G. og Pilcher, H. (2016). What is listening comprehension and what does it take to improve listening comprehension? Í R. Schiff og M. Joshi (ritstjórar), Handbook of interventions in learning disabilities, (bls. 159―174). Springer.

Kim, Y-S. G. og Yun, J. (2019). Theory- and evidence-based language learning and teaching for young children, promoting interactive talk in the classroom. Í V. Grøver, P. Uccelli, M.L. Rowe og E. Lieven (ritstjórar), Learning through language (bls. 64―73). Cambridge University Press.

Lindqvist, G. (2001). When small children play: How adults dramatise and children create meaning. Early years: An International Research Jounal, 33(1). Routledge. https://doi.org/10.1080/09575140123593

Nicolopoulou, A. (2007). The interplay of play and narrative in children´s development: Theoretical reflections and concrete examples. Í A.

Göncu og S. Gaskins (ritstjórar), Play and development: Evolutionary, sociocultural and functional perspectives (247―273). Lawrence Erlbaum associates, publishers.

Richner, E.S. og Nicolopoulou, A. (2001). The narrative construction of differing conceptions of the person in the development of young children´s social understanding. Early Education & Development, 12(3). 393―432. http://dx.doi.org/10.1207/s15566935eed1203_6

Ward, K. (2016). The natural world as content for interconnection and divergence of pretense and storytelling in children´s play. Í S. Douglas og L. Stirling (ritstjórar), Children´s play, pretense, and story (bls. 227―250). Routledge.

bottom of page