top of page

Frí uppskrift

Þæfðar leikbrúður,
leikefni fyrir börn með einingakubbum

Athugið að leikbrúðurnar eru ekki leikefni fyrir börn yngri en 3 ára vegna smárra íhluta þeirra.

Leikbrúður fyrir börnin auka ímyndunarafl þeirra, sköpun og endursögn. Börnin þekkja margar sögur sem þau hafa séð sem brúðuleikrit í sögustund hjá kennara. Þæfðar brúður eru einfaldar og geta staðið fyrir hvaða sögupersónu sem er. Börnin geta skapað og endursagt í eigin útgáfum af sögunum.

Það þarf:

Ull í mismunandi litum

Bakka

Bóluplast

Sápuvatn

Trékúlur: 1,5cm,  2.0cm,  2,5cm.

Smærri trékúlur eða tölur

Stóra og grófa nál með beittum oddi

Gróf skæri

Takið ullina í sundur og skoðið lögun hennar. Ullin er í lögum. Best er að taka eitt lag fyrir sig en það þarf þrjú til fjögur lög af ull í ullarbútinn.

Blandið litum saman til að fá sem mestan fjölbreytileika í efnið til brúðugerðarinnar. Hér er fyrsta lagið blátt og appelsínugult. Annað er gult og þriðja lagið er dökkbleikt.

IMG_2135.JPG

Leggið bóluplastið yfir og hellið sápuvatninu varlega í bakkann.

Þæfið með því að nudda efnið upp úr sápuvatninu með bóluplastinu. Snúið við og þæfið einnig þá hlið. Það tekur um 30-60 mínútur að þæfa efnið.

Þegar ullarbúturinn er orðinn þykkur og þéttur þarf að skola sápuna úr. Efnið er síðan lagt á handklæði og það rúllað upp og lokað fyrir með teygjum. Setjið í þurrkara í um 30 mín. Takið úr handklæðinu, sléttið úr og látið þorna.

Klippið þykkan og þéttan bút úr efninu sem er um 10 sm á hæð og 9 cm á breidd fyrir fullorðna brúðu. Hafið efri hlutann rúnaðann.

Saumið saman og lokið að ofan. Klippið út handleggi um 11 cm að lengd. Hafið handleggina aðeins bogna. Veljið hár á brúðuna og trékúlu eða tölu sem verður efst á hausnum og kemur því út eins og húfa eða kóróna. Brúðan festist saman með því að þræða frá bolnum, gegnum handleggi í miðju, gegnum haus, gegnum hár og endar í perlunni. Festið enn betur með því að þræða nokkrum sinnum í gegn.

Með brúðunum má útbúa tré úr niðursöguðum trjábútum og líma þæfða ull ofan á.

Einnig er hægt að nota dýr, steina, efnisbúta og ýmislegt verðlaust efni sem leikefni með brúðunum og einingakubbunum.

Fullorðin brúða er um 12-14 cm há. Þá er þæfði hlutinn 8-10 cm og 9-10 cm á breidd, handleggir 10-11 cm að lengd og 1 cm á breidd, trékúla 2,5 cm fyrir haus, hár og perla.

Barn er um 9-10 cm á hæð. Þá er þæfði hlutinn 6-7 cm á hæð og 9 cm á breidd, handleggir 10 cm á lengd og tæplega 1 cm á breidd, trékúla 2,0 cm fyrir haus, hár og perla.

Ungabarn er þæfður efnisbútur sem er 5-6 cm á lengd og 2-3 cm á breidd. Búturinn er tekinn saman í annan endann og þrætt í gegnum trékúlu 1,5 cm, hár og perlu. Barnið verður um 8 cm að stærð.

Bindið bönd um ulnliði. Það motar hendur og styrkir handleggina.

IMG_2216-70.jpg
bottom of page